LEIKURINN OG MALÞROSKINN

Uncategorized Mar 09, 2021
 

 

Leikur og Boðskipti

Höfundur:

 Svanhildur Svavarsdóttir talmeinafræðingur

  • Þetta er stutt innlegg um mikilvægi þess að vera meðvituð um hvernig við tölum og leikum við börnin okkar.

SAMTALIÐ – SPJALLIÐ

Hvaða boðleiðir eru þér eðlilegar í samskiptum við barnið þitt. Það er afar mikilvægt að vera meðvitaður um eigin aðferðir, eru þær að hafa áhrif eða ekki og hverju þarf að breyta svo það henti barninu betur.

Það eru yfirleitt tvær leiðir:

  1. RÓLEGA SPJALLIÐ:

Þú talar hægt og rólega.

Þér finnst best að leika hljóðláta leiki.

Þú talar ekki hátt við barnið þitt.

Þú notar lítið  blæbrigði í röddinni.

Þú vilt síður vera með ærsl og læti við barnið.

  1. HÁVÆRA SPJALLIÐ :

Þú talar hratt og hátt. Þú notar mikið svipbrigði og látbragð þegar þú talar við barnið. Þér finnst gaman að vera með ærsl og læti við barnið.  Þú leikur sjaldan rólega við barnið. 

TIL UMHUGSUNAR :

Það er afar mikilvægt í samskiptum okkar við börnin sem eru á einhverfurófi að skoða vel viðbrögð þeirra við okkar tali og svipbrigðum þegar við erum að leika við þau. Við byrjum á að setjast hjá barninu okkar og vera til staðar. Barnið þarf að finna að þú ert þarna heilshugar og ekki til að stjórna, þú fylgist með leik barnsins og ferð að leika við hliðina á því.

Ekkert barn er eins, þess vegna verðum við að fylgjast vel með þegar við setjumst niður með barninu okkar og athuga  hvaða blæbrigði í röddinni hafa mest áhrif.

Horfir barnið bara á þig og brosir þegar þú ert hávær, eða eru viðbrögðin betri þegar röddin er lágvær.

Við vitum að þau skynja vel þitt andlega ástand og ef þú vilt að stundin nýtist vel verðum við að vera í andlegu jafnvægi þegar við leikum okkur við börnin okkar. Þegar við erum róleg og í andlegu jafnvægi verða þau það líka.

Röddin þín er afar mikilvægt verkfæri í samskiptum okkar við börnin. Þau heyra á röddinni þinni hvernig þér líður og skynja vel skilaboðin sem koma með blæbrigðum hennar. Þau heyra hvort þú ert glöð, reið, pirruð, ergileg, kát, sorgmædd og það þýðir ekkert að reyna að fela hvernig tilfinningar við höfum á þessu augnabliki – þau finna og vita ef þú ert að reyna fela ástand þitt – þess vegna er betra að vera heiðarleg og segja þeim hvernig þér líður hvort sem það er gleði eða leiði. 

Það skiptir miklu máli að við séum heiðarleg og látum okkar tilfinningar í ljós og kenna þeim að það er allt í lagi að vera stundum reið eða pirruð og kenna þeim að við getum lært að stjórna tilfinningunum en ekki leyfa tilfinningunum að stjórna okkur. 

                           TIL UMHUGSUNAR :

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir hvernig boðskiptin okkar líta út. Við verðum að vera meðvituð um hvernig við erum að koma fram við börnin.  Þau þurfa að finna að við erum hér fyrir þau og munum gefa þeim ótruflaða athygli. 

Við verðum líka að læra að þekkja hvaða leiðir hentar hverju einstaka barni best. Þegar við sjáum að hann eða hún  lítur ekki einu sinni upp þegar þú talar rólega, þá kanna strax hvað gerist ef þú breytir raddbeitingu, talar hærra, eða lægra og nota meiri tilfinningaleg blæbrigði í röddinni.

AÐALFLOKKUN BOÐLEIÐA ERU TVÆR :  

  1. STÝRANDI BOÐ
  2. STYÐJANDI BOÐ

  HVERNIG ERU STÝRANDI BOÐ :

Þú ert sífellt að spyrja barnið og stjórna því.

Þú ert stöðugt að segja barninu hvað það á að gera.

Þú ákveður hvað á að leika eða tala um.

Þú leyfir barninu ekki að ákveða hvað á að leika.

Þú talar ekki um það sem barnið vill tala um.         

HVERNIG ERU STYÐJANDI BOÐ :

Þú fylgir eftir leik barnins og setur orð á athafnir.

Þú leyfir barninu að tala um það sem það vill.

Þú ert ekki að spyrja barnið. Þú setur orð á athöfn.

Þú talar um það sem barnið er að gera.

Barnið velur sjálft það sem það vill leika með.

Til umhugsunar :

Það er yfirleitt mun betra að nota sem mest styðjandi boð fyrir nemendur með einhverfu.

Það er oft mikil hætta á að þau reyni ekki að tala ef þau þurfa aðeins að svara já eða nei.  Það er meiri málörvun að segja frá því sem þau eru að gera, eru að  upplifa en að spyrja þau um það sem þau eru að gera.

Við setjum orð á athöfn og bíðum eftir viðbrögðum frá þeim en gerum engar kröfur.  Það að bíða og gefa þeim tíma til að segja okkur er það besta sem þau upplifa, þá ertu að sýna þeim að þú ert að hlusta og sýnir þeim áhuga. Sitja hjá þeim og sýna leik þeirra áhuga og bíða eftir að þau sýni okkur eða bendi okkur á er mun árangursríkari leið til að fá fram spjall frá þeim – þau finna áhuga þinn á þeim og það sem þau eru að gera og þá kemur löngun frá þeim að tala við okkur.

Notaðu andlitið, vertu hissa, undrandi, leið, glöð, settu upp spurnarsvip og bíddu aðeins, þá kemur viðbragð eða svar.

SAMTALSFÆRNIN EFLD:

Þegar við erum að leika með eldri börn, má efla samtalsfærni barnsins á margan hátt.  Við byrjum oft á að segja eitthvað fáranlegt sem gefur okkur upplýsingar um hvort þau eru að hlusta   -  og svo bíðum við aðeins til að fá viðbrögð:

‘Það voru gírafar úti á bílastæðinu áðan þegar ég kom´´ ?????

‘ eða ´´ég sá hund með hatt í gær ´´og sýnum svo mynd og bíðum eftir viðbrögðum -  við getum líka notað blæbrigði í röddinni, sett upp spurnarsvip,  bíðum til að sjá hvort barnið vill bæta einhverju við það sem þú sagðir….eða biður þig um útskýringar ……….hvað ertu að meina ?

Við gerum– segjum einhverja vitleysu og svo bíðum við eftir viðbrögðum eða svörum :  ‘ Það er oft gaman að synda á fótboltavellinum ‘  ( ERU AÐ HLUSTA )

Leggðu áherslu á það sem þú ert að segja með því að nota röddina, svipbrigði, eða hreyfingu…..og svo bíða eftir svari eða staðfestingu.  Við notum leikinn og leikaðstæður sem leið til að efla málþroskann.  

Hér kemur stutt lýsing á leikstigunum og þróun leiksins.  

Leikstigin eru þessi:

  1. A) Leikur einn
  2. B)           Leikur við hlið
  3. C)      Deilir leikföngum með öðrum
  4. D)            Samvinnuleikur
  5. E)             Þykjustuleikir
  6. F)           Regluleikir 

# MIKILVÆGT AÐ MUNA :

Ef tilgangur þinn til boðskiptanna eða samskipta við barnið er til að stjórna eða hafa áhrif verða þau einskis virði.

LEIKUR EINN:  Leikirnir eru þá þessir:

Skoða dót, hluti og handfjatla,setja ofan í, taka í sundur, raða og stafla kubbum,skoða bók, skoða myndir, sulla, ýta á takka og þá gerist eitthvað, rúlla niður bíl,draga bílinn,krassa með grófum lit a töflu eða blað.

HLIÐARLEIKURINN:  Þar er barnið við hlið annars barns og leikur með sams konar dót en deilir því ekki, t.d. staflar sínum kubbum, er með sinn leir, er með sitt blað til að mála, þræða, sullar í sinni fötu, pússlar sitt, klæðir dúkku í föt,keyrir sinn bíl á gólfinu, keyrir sína lest á teinum og sinn bíl á bílabraut.

DEILIR LEIKFÖNGUM:  Þetta eru oft sömu leikir og hér að ofan en nú þarf að leika með sömu teinana og vinurinn, sömu brautina, setja saman í eitt pússl, verður að kunna að nota sama kubbaboxið.

SAMVINNULEIKURINN:  Setja saman dúkkuhúsið, setja saman lestina, búa til kubba kastala, búa til mynd, klippa og líma búta á sama blaðið. Leika með leirinn og nota sömu tækin, mála með pensli á sama blað. Teikna á trönur,standa saman og lita sömu myndina.

ÞYKJUSTULEIKURINN:  Dúkkuhúsið -Búðarleikurinn og svo leikur með að fara í bankann, Skóbúð,Bókasafn,Flugvöll,Veitingahús, Strætó, vera kennarinn, nota Þvottavél og fleira.

REGLULEIKIRNIR:  Taka þátt í leik með öðrum og fara eftir settum reglum. Það getur verið erfitt fyrir viðkomandi en að sjálfsögðu má kenna hinum börnunum að það gæti þurft að aðlaga þannig að það verði ekki allt of erfitt fyrir þau. Smám saman geta þau sem eru á einhverfurófinu skilið og lært og umborið allan þann breytileika sem  verður þegar við spilum og leikum saman við aðra.  Það er oft góða byrjun að nota alls kyns Hringleiki eins og ´´Fram Fram Fylking´´ ´´Snú Snú ´´ ….Göngum/ Göngum…

Hoppa í Paris…Láta hlutinn ganga a meðan tónlist er spiluð, en þegar hún hættir þá tapar sá sem er með hlutinn.   

Leikurinn : Símon segir, Feluleikurinn sem við segjum heitur eða kaldur eftir því hvort viðkomandi sé nálægt hlut eða ekki.

Spila á spil – Domino – Skák.

 Þetta eru dæmi um ýmsa leiki sem við getum notað, þegar við vitum hvar viðkomandi er staddur í leikþroskanum.

P.S.

Stuart Brown, höf.bókar: How Play Shapes the Brain

Mary Sheridan höf.  FROM BIRTH TO FIVE YEARS  –  PLAY IN EARLY CHILDHOOD eru bestu bækur sem ég hef lesið um leikinn.

Jannik Beyer and Lone Gammeltoft höf: AUTISM AND PLAY 

Close

50% Complete

Viltu fá upplýsingar um greinar og fréttir?