Skipulögð kennslustofa

skipulögð kennsla Nov 20, 2020

 Hér kemur smá pistill um hvers vegna skipulagðar kennslustofur eru mikilvægar fyrir nemendur á einhverfurófinu og einnig lýsing á þannig kennslustofu.

 Sjónrænt skipulag eykur skilning einhverfra á umhverfinu og hinum mismunandi aðstæðum sem þau eru í skólanum.

Það eykur einnig skilning á til hvers er ætlast í aðstæðunum. 

Einhverfir eiga oft í erfiðleikum með málskilning. 

Það gerist oft að nemandinn skilur ekki málið eins vel og kennarinn hans hefur áætlað.  

Nemandinn getur því brugðist illa við munnlegum kröfum af því hann skilur ekki hvað hann/hún eigi að gera og í stað þess að segja: ég skil ekki, getur hann slegið frá sér, frosið á staðnum eða hlaupið í burtu.

Nemandinn getur einnig átt í erfiðleikum með að nota málið í flóknum aðstæðum.  Kann ekki að segja það sem hann/hún þarf til að laga aðstæðurnar fyrir sig, eins og t.d. ég er þreytt, ég er svöng, mér er heitt, ég get þetta ekki, þetta er leiðinlegt, má ég hætta, og sýnir þá oft atferli í stað þess að tala, eða segja frá hvernig þeim líður.

Nemandinn á oft í erfiðleikum með raðminni, man ekki hvað kemur næst, og verður því kvíðinn. 

Oft finnst þeim betra að gera sama hlutinn aftur og aftur því það gefur öryggi og bregst því illa við hvers konar nýjum athöfnum og nýju námi. 

Nemandinn mun samt sem áður smám saman hafa gaman af þvi sem er nýtt og vill læra nýja hluti en á skipulagðan og fyrirsjánlegan hátt.

Það er algengt að nemandinn geti ekki sýnt sjálfstjórn né færni í að skipuleggja sig þegar kröfur eru of miklar. 

Það er oft erfitt fyrir nemandann að vita hvernig hann á að hegða sér í hinum mismunandi félagslegu aðstæðum.

Nemandinn á það til að sýna einkennilegt hátterni af því hann kann ekki að leita eftir athygli á viðeigandi hátt, eða hann gefst upp og vill einangra sig frá umhverfinu.

Það sem er oft erfitt fyrir einhverfa nemendur er ná félagslegum tengslum.

Þau sýna ekki sömu viðbrögð við félagslegri hvatningu sem oft er stuðningur fyrir aðra nemendur og virðast þess vegna ekki vilja samskiptin. 

Skyntruflanir geta oft valdið því að við sjáum óviðeigandi atferli hjá þeim.

Þau truflast auðveldlega af umhverfi og verða auðveldlega kvíðin og hrædd.

Þegar þau eru í þessu ástandi eru þau ekki tilbúin að læra, þau þurfa stuðning, sem er alúð og umhyggja.

Við ættum aldrei að segja NEI, fyrir marga af okkar nemendum þýðir það aldrei. Það er hægt að segja nei á margan hátt án þess að nota það orð.

Fyrir nemandann sem er með hendina á lofti og tilbúinn að slá segjum við;

 Viltu setja hendur í vasann ”

Nemandinn sem vill fara í tölvuna núna, segjum við;

“ Já, en það þarf fyrst að……… ”

Við nemandann sem öskrar hátt segjum við;

“ Við skulum loka munninum ”

Við skulum heldur ekki reyna að stöðva þau þegar þau eru á hlaupum út um dyrnar.  

Við skulum staldra við og bíða og fylgjast með hvert þau eru ad fara og koma svo til þeirra í rólegheitum og rétta þeim TöFLUMIÐANN, sem er vísbending til þeirra að koma og athuga stundatöfluna.

Yfirleitt taka þau við honum og segja ekkert og fara að töflunni og síðan þangað sem þau áttu að vera.

Þetta er kallað að leiðbeina í stað þess að gagnrýna, þar sem við erum að nota sjónræna vísbendingu um leið. 

Við gagnrýnum aldrei, við leiðbeinum og gefum stuðning þegar þau eru að missa sjálfstjórnina.

Einhverfir nemendum finnst oft erfitt að fylgja eftir munnlegum skipunum.  Þeim finnst þær vera áras og bregðast oft við með því að annað hvort hlaupa í burtu eða frjósa eða gera ekki neitt.  

Það lítur út eins og þau séu með leiðindi en þau ráða bara ekki við aðstæður, og framkoma þeirra er því alls ekki hegðunarvandamál. Það sem við sjáum er viðbrögð við breytingum, það er erfitt að skipta um athöfn, breyta athygli, hugsa um eitthvað nýtt, eða á annan hátt.   

Annað vandamál getur oft komið upp og það er þegar viðkomandi festist í sömu athöfn aftur og aftur eða spyr sömu spurninguna aftur og aftur þá verðum við að skilja hvað er að og svara þeim á jákvæðan hátt.  Undirliggjandi vandinn er kvíði og erfitt að sjá fram í tímann og fyrir endann á tímanum.

Við svörum þessu á þennan hátt:  já, ég heyri það sem þú ert að segja, þannig erum við að staðfesta það sem þau segja en ekki samþykkja og þannig drögum við úr spennu hjá viðkomandi. Þau upplifa að það sé verið að hlusta á þau sem skiptir þau miklu máli.

Með því að hafa umhverfið vel skipulagt og verkefnin sem vinna þarf með á  hverjum stað vel sett fram með sjónrænum vísbendingum, mun það draga úr kvíða og efla skilning nemandans á aðstæðum sem gerir hann betur tilbúinn að læra og taka við námsefninu. 

STUNDATÖFLUR:

Stundatöflur eru afar mikilvægur og hluti af skipulagðri  kennslustofu.

Nemendur með einhverfu þurfa allir að hafa sína eigin stundatöflu.

Margir nemendur með einhverfu eiga oft í erfiðleikum með að muna hvernig skóladagurinn líður og spyrja oft stöðugra spurninga, og muna oft ekki hvernig ferlin verða á hverjum stað. Það er þess vegna sem við kennum þeim að nota stundatöfluna sem hjálpar þeim að muna og dregur úr kvíða hjá þeim.  Það að kunna að nota stundatöflu og nýta hana sem daglegt verkfæri stuðlar að sjálfstæði seinna meira á ævinni, bæði í framhaldsnámi og starfi.

Nemendur með einhverfu eiga oft erfitt með fara eftir munnlegum skilaboðum, þau heyra en vinna ekki úr upplýsingunum til að vita hvað þarf að gera eða framkvæma.

Stundatafla sem eru með góðum upplýsingum um hvert verkefni sem á töflunni er hjálpa nemendum að skilja til hvers er ætlast og eflir skipulags færni. 

Stundataflan hjálpar okkur við að hætta að nöldra og tuða, við bendum á töfluna og hún verður tækið sem stjórnar en ekki við.

Stundataflan mun draga úr kvíða og spennu sem er afar ríkjandi ástand hjá nemendum með einhverfu.

Stundataflan er stuðningur í að gefa upplýsingar um það sem koma skal og eflir möguleika nemandans á að verða sjálfstæður og færni í að fara á milli staða.

Stundataflan segir til um hvert á að fara næst.

Það stuðlar einnig að hvatningu þegar þau sjá hvað kemur næst og þau vita þegar þetta er búið þá get ég gert þessa athöfn sem mér finnst skemmtileg.

HÉR KEMUR DÆMI UM HVERNIG SKIPULÖGÐ KENNSLUSTOFA GETUR LITIÐ ÚT. 

Tveir nemendur eru að baka inn í eldhúsi og eru ad fara eftir uppskrift á blaði og aðstoðarkennari fylgist með. 

Það er annar nemandi á tómstundasvæðinu að rýja teppi.

Það er nemandi á vinnusvæðinu að ljúka við lista af verkefnum tengd starfsþjálfun, og svo er nemandi hjá kennara í innlögn á nýrri færni.

Við heyrum í tímavaka, sem getur gengið að nota í örfáum tilfellum, en flestir hafa vinnukerfi sem eru ýmist körfur eða möppur sem sýna þeim hversu mikið þau eiga að gera og að lokum hvað kemur næst – sem er mynd af Töflumiða sem segir þeim að fara aftur að stundatöflunni til að vita hvert á að fara næst.

TÖFLUMIÐINN = gefur innri skipun um að standa upp og fara að stundatöflunni.

Verkefnin eru sett upp í hillur, stólar eru settir undir borð, kennarinn hrósar nemendum með brosi og hljóðlegri hvatningu, sjónrænar vísbendingar eru nýttar til að stuðla að skilningi.

Nemendur fara sjálfir á milli svæða og koma sér á nýjan stað.

Hvernig vita allir hvað þeir eiga að gera og hvert þeir eiga að fara ? ( Það eru stundatöflur sem segja hvert á að fara)

Hvernig vita kennararnir hvaða nemandi kemur næst til þeirra?  ( stundatafla á vegg fyrir starfsfólk)

Hvers vegna gengur þetta allt svona hljótt og átakalaust? 

Kennslustofan er skipulögð hvert rými hefur sinn tilgang, og stundataflan stuðlar að því að hver nemdandi veit hvert hann á að fara  og hvert rými sýnir hvað gera skuli þar. 

Það eru tvenns konar stundatöflur í gangi fyrir allan bekkinn. Stundatafla fyrir starfsfólk svo allir viti hvert þeirra hlutverk er í dag og svo hefur hver nemdandi sína eigin stundatöflu sem stuðlar að sjálfstæði þeirra.

Hér er dæmi um stundatöflu fyrir nemanda á yngra stigi.

8:30 Nemendur mæta, ganga frá bakpoka, heilsa kennara, og fara að stundaskrá.


8:45 Vinna sjálfur / Leika einn


9:30  Vinna með kennara / leika einn

10:15 Frímínútur

10:30 Félagsleg samvera/ spila 


11:00 Vinna sjálfur/ leika einn


11:45 Undirbúningur / hádegismat

12:00 Hádegismatur

12:30 Útivist / Leikfimi 

1:00 Tiltekt í borðsal/þurrka borð/sópa 

1:45 Vinna sjálfur/ Leika einn 


2:30 Kveðjustund- Heim/Rúta

HVERNIG Á AÐ NOTA TÖFLUNA*****

 • Þegar nemandinn mætir, gengur hann að vegg þar sem hann hengir upp úlpu og leggur frá sér bakpokann.  Hann tekur spjald af veggnum sem er mynd af stundatöflunni. Hann tekur þessa mynd af stundatöflunni og gengur að stundatöflu og skilur myndina eftir þar, horfir svo á stundatöfluna og sér hvað kemur næst og fer þangað sjálfur. 
 • Stundataflan segir til um hvað gera skuli í dag. Það er box við hverja athöfn sem nemandinn merkir við þegar athöfn er lokið.
 • Kennarinn og nemandinn skrifuðu stundatöfluna saman í gær áður en nemandinn fór heim.
 • Hann sér hvað hann á að gera klukkan 8:30 og fer á þann stað.
 • Hann kallar á kennarann þegar hann er búinn með verkefnin og kennarinn sér hvort verkefnin hafa verið unnið rétt og þá merkir hann við á töfluna að þetta sé búið. (stundum eru verkefnin látin á akveðinn stað ef kennarinn getur ekki skoðað strax)
 • Næsta verkefni er klukkan 8:50. Ef hann hefur tíma getur hann farið sjálfur á leiksvæðið í smástund.
 • Hann heldur áfram með verkefni dagsins og notar stundatöfluna sem leiðbeingartæki um hvert hann eigi að fara.

Notkun á stundatöflunni stuðlar að betri nýtingu á tíma nemenda og einnig auðveldar tilfærslur milli staða í kennslustofunni. Það verður meiri tími fyrir kennara að sinna beinni kennslu og minni þörf á að stjórna eða segja nemendum hvar þeir eigi að vera því stundatflan sér um það, myndræna skipulagið verður stýringin.

Þegar nemendur skilja tilgang stundatöflu, eykst sjálfstjórn og frumkvæði þeirra til mikilla muna. Frumkvæði er sú færni sem tengist virkni framkvæmda heila, kunna að byrja, halda áfram, ljúka við verkefni og finna lausnir sem mun nýtast vel seinna á ævinni í starfi og eða framhaldsnámi.

Atriði sem skal huga að þegar við skipuleggjum stundaskrána.

Vita kennarar hvert er þeirra hlutverk yfir daginn ?

Eru verkefnin sniðin að þörfum nemenda yfir daginn: einstaklingsvinna, hópavinna, tómstundir, hreyfing, áhugasvið?

Fá nemendur tækifæri til að hvíla sig eða slaka á ? Kennum við slökun?

Hafa nemendur tíma fyrir tómstundir?

Er stundataflan að hjálpa – þarf að breyta henni er hún rétt hönnuð.

Hvernig undirbúum við breytingar og aðrar tilfærslur?

Er bjallan að hjálpa eða trufla? 

Er kennarinn að nota sjónrænar vísbendingar? 

Kann nemandinn á klukku ?


Notar nemandinn vinnukerfið svona 

 • Verkefni  A
 • Verkefni  B
 • Verkefni C
 • Búin að vinna
 • Skoða töflu.

Spurningar sem kennarar verða að spyrja sig ef nemandinn á í erfiðleikum í skólanum.

Höfum við kennt nemandanum að nota stundatöfluna?

Hvað skilur nemandinn best; myndir, orð, ljósmyndir, eða þarf að sýna hlut til að segja hvert er verið að fara?

Nemandinn skilur bara hluti þá vinnum við svona : Við réttum honum bolta í hvert sinn sem við forum í leikfimi, réttum skeið þegar við förum að borða, réttum úlpuna sem skilaboð um að fara út.  Nemandinn lærir að tengja hlutinn við staðinn og nær að skilja til hvers er ætlast.

HVERNIG Á AÐ KENNA NEMANDA MEÐ EINHVERFU? 

Hefur kennarinn gefið sér tíma til að tengjast nemandanum og öðlast traust hans? ( Connect before we correct)

Veit kennarinn hvaða áhugasvið nemandinn hefur?

Notar kennarinn áhugasvið nemenda til að kenna mismunandi hugtök ?

Ef við ætlum að kenna nemanda athöfn sem hann á að gera einn seinna er best að tala sem minnst og sýna honum eða nota ljósmyndir.

Hann lærir þá að treysta á sjónrænu skilaboðin sem stuðning en ekki á kennarann.

Nemendur verða oft mjög háðir kennara sínum, þess vegna er svo mikilvægt að kenna þeim að verða sjálfstæðir eða gera allt einn.

Vertu viss um að hafa athygli nemandans áður en þú gefur honum fyrirmæli.

Vertu viss um að barnið skilji orðin sem þú notar og vertu alltaf með sjónrænar vísbendingar líka.

Þegar nemandinn stoppar í verkefni getur það oftar en ekki verið að hann vantar sjónrænar vísbendingar fremur en að hann vilji ekki gera verkefnið.

Veit nemandinn hvernig verkið lítur út þegar því er lokið.

Eru verkefnin sett skipulega fram.

Er of mikið af upplýsingum og veldur því að verkefnið verður yfirþyrmandi og nemandinn gefst upp.

Fær nemandinn viðeigandi stuðning svo hann geti lokið verkefninu.

Notum við kennsluaðferð sem stuðlar að auknu sjálfstæði og skilningi hjá þessum nemanda.

Eru til uppskriftir um hvernig eigi að haga sér í hinum mismunandi aðstæðum.

Við höfum ávallt í huga að fyrirbyggja að vandamál komi upp með því að gefa skýr skilaboð og skýrar væntingar til nemenda.

Veit nemandinn áður en hann fer í nýjar aðstæður til hvers er ætlast.

Við leiðbeinum – gagnrýnum aldrei.

Við skulum hafa hendur í vösum,” “ Loka munn”,  “Fætur á gólfi”, “Sitja núna”, “Við skulum ganga á göngunum”  

“ Sitja í rútu”  “ Við erum að skrifa núna ”  Við beinum athygli að því sem á að gera en erum ekkert að tala um það sem á ekki að gera, það tefur en að setja orð á athöfnina sem við viljum að sé verið að gera eykur skilning og gefur skýr svör um hvað eigi að gera.  

Hrósa fyrir að reyna og sýnum nemendum virðingu.

Það er mikilvægt að nemandinn viti til hvers er ætlast áður en hann byrjar á verkefni eða athöfn það dregur úr að eitthvað fari úrskeiðis.

Við vitum að athygli er mun betri ef við nýtum áhugasvið nemendanna þegar við erum að kenna ný hugtök.

Bestu kveðjur Svanhildur 

Skráð í nóvember 2020.

 

Close

50% Complete

Viltu fá upplýsingar um greinar og fréttir?