TEACCH - KENNSLUSTOFAN - TAUGALÍFFRÆÐILEGUR - FJÖLBREYTILEIKI

Uncategorized May 11, 2022

 KENNSLUSTOFA 

FYRIR EINHVERFA NEMENDUR

 Svanhildur Svavarsdóttir samdi texta.

 

Aðalmarkmið við uppsetningu á sérstakri kennslustofu fyrir einhverfa nemendur er að við ætlum að ná árangri !

Kennslan á að vera einstaklingsmiðuð – og byggja á áhugasviði nemenda.

Við ætlum ekki að breyta nemendunum við tökum þeim eins og þeir eru. 

Við trúum því að þeir geti lært – okkar að finna út hvernig þau læra og hvernig á að kenna svo að nám fari fram.

Þegar þau finna að þú hefur trú á þeim og skynja að þú virðir skoðanir þeirra og þú hlustar á þau, þá geta orðið ótrúlega miklar framfarir.

 

  1. Skipulag er mikilvægt.

Einhverfir nemendur blómstra í miklu skipulagi.  Komdu á reglu og föstum rútinum, en ekki of föstum því við verðum öll að kunna að takast á við breytingar og þess vegna þarf að æfa fjölbreytileika innan kerfisins sem verða alltaf að koma sjónrænt  fram og með því að nota stundatöfluna sem leiðandi afl í að virkja nemendur.

 

Svæðin í stofunni eru þessi :

Fatahengi – pláss fyrir hvert barn

Læra með kennara 2 svæði,

Sjálfstæð vinna

(best ef hver hafi sitt svæði)

 Afþreying/ hvíld  – Leika / spila   

Tölvusvæði – ( 2 tölvur)  

Hópkennsla – ( 2 hringborð ) 

STAÐUR fyrir  stundatöflur

Staður til að hlust á tónlist 

Bækur - Leskrókur  - gæti líka verið sem leikur/ og samvera.

 

Hvernig byrjar dagurinn:

Gefum okkur tíma til að heilsa hverjum nemanda á hverjum morgni,  ná tilfinningalegri tengingu við hvert barn.

Þú heilsar hverju barni – sérstaklega.

Nemendur hengja upp útifötin

Setja skólatöskuna á sinn stað

Setja sundföt – leikfimiföt á réttan stað

TÖFLUMIÐAR ERU UPP Á VEGG. Hver nemandi tekur sinn töflumiða og fer að sinni töflu.  Töflu-miðinn er settur í umslag við töfluna

– eða í box hjá töflunni.

Nemandinn fer þar sem taflan segir til um, og flest fara að sínu borði. (eða hópborði)

 

Kennslustundin gengur mun betur ef hún hefur verið sett upp í vinnukerfi.

Hvað er vinnukerfi ? Vinnukerfið svarar eftirfarandi spurningum:

  • Hvað á að gera ?
  • Hversu mikið á að gera ?
  • Hvenær er ég búin ?
  • Hvað gerist næst ?

 

Vinnukerfin eru í raun skrefin / ferlin sem fara fram í hverri kennslustund.

Mikilvægt að vita hversu lengi athöfnin er og vera svo undirbúin ef breyting verður. Stundum hefur verið gert ráð fyrir of löngum tíma ?

----hvað geta nemendur gert þá ?.

----hvað ef tíminn er of stuttur – undirbúa sögu og kenna þeim að stundum er ekki hægt að klára – þetta er oft erfitt  fyrir einhverfa nemendur.

  • Það er mikilvægt að muna að frítími fyrir einhverfu nemendanna er þeim afar erfiður – og því miður fá þau oft allt of mikinn frítima. Þau eru látin bíða eða hanga og vita ekki hvað þau eiga að gera á meðan og auðvitað –ekkert nám.
  • Það er mun betra að fara í sjálfstæða vinnu – því það er í raun æfing á framkvæmdafærni – eða þau eru að leika sér ein – vinnan verður leikur.

Verkefnin sem þau eru að vinna í sjálfstæðri vinnu tengjast þeirra áhugasviði þannig að sú vinna er þeim kær.  

  1. Nota sjónræn skilaboð.

Myndin er á við 1000 orð. Notið þær alltaf og eins mikið og þið getið.

Það er oft þannig ástand hjá nemendum að þau heyra það sem sagt er en skilja ekki, vita ekki hvernig á að framkvæma athöfnina á þessu augnabliki, jafnvel þó þau gætu hafa gert það í gær. Þetta er afar algengt og heitir verkstol. Ástæðan  er ekki leti, heldur eru þau ekki með nægjanlega virkni í heila á þessu augnabliki eða tengingar til að framkvæma ferlið.

Okkar nemendur læra betur  þegar við kennum þeim með því að sýna um leið.

Þannig erum við líka – við munum betur upplýsingarnar ef við fáum að sjá.

Þegar kennslan krefst einbeitingar þá verður erfitt að fylgjast með ef eingöngu er notað talað mál.

Sjónrænu vísbendingarnar halda athygli og áhuga.   Þegar við kennum nemendum að bursta tennur – sýnum mynd af tönnum sem eru burstaðar og svo aðrar óburstaðar. Oft gengur vel að nota hliðarleikinn sem leið – t.d. reima þína skó – um leið og hann á að reima sína. Hann fylgist með þér og hermir eftir.

 

Sýnikennsla – myndband er oft notað til að kenna krökkunum mismunandi færni – og hugtök sem eru huglæg eins og það að vera tillitsamur – vera kurteis – og hvernig má heilsa – sem er orð með tvöfalda merkingu. Best er að sýna mynd af hugtökum sem á að læra  – þá skilst mun betur um hvað er verið að tala  - og hvað þýðir ‘ heilsa’

Ég tala oft um flugvelli – til að útskýra gildi sjónrænu skilaboðanna -  hversu háð við erum að hafa öll þessi sjónrænu skilaboðin til að fara eftir – ef þau væru ekki þarna yrði alveg örugglega algjör ringulreið á staðnum.

Bæjarferð er á dagskrá hjá nemendanum – hvernig þurfum við að undirbúa það.

Þú þarft að sýna ferlið frá upphafi til enda með myndum eða með texta – og ef þú gerir það, mun nemandinn geta undirbúið sig sjálfur.

Reyndu að sýna, eða skrifa, frekar en tala – það auðveldar skilning, nemendur sjá orðalistann og átta sig á þetta er ferli og skilja betur þó svo þau kunni ekki alltaf að lesa.

  1.  Stundatöflur

Hver taflan er sniðin að þörfum hvers og eins nemanda. Stundataflan segir okkur hvert á að fara – er staður.

 Við reynum svo að hanna stundtöflur í samræmi skilning nemenda. Sumir þurfa að sjá hluti sem tengjast staðnum sem þau eru að fara á – aðrir þurfa ljósmyndir – teiknaðar myndir – sumir lesa orð á stundatöflunni – og enn aðrir lesa setningar.

Nemendur með einhverfu finnst gott að vita hvað kemur næst, því það veitir þeim öryggi.  Þegar nemendur hafa ekki vanist því að nota stundatöflu þarf að kenna þeim hvernig þær geta hjálpað við að vita hvað á gera í dag.

Stundataflan sýnir atburðarásin fyrir daginn og hjálpar nemanda að segja frá og muna hvað er næst. Stundataflan dregur líka úr kvíða sem er oft til staðar hjá einhverfum nemendum.

 

Stundataflan segir nemanda hvert á fara eða á hvaða stað.

  1.  Leikasvæði
  2.  Vinna einn
  3.  Læra með kennara
  4.  Hvíld
  5.  Matur
  6.  Útivist
  7.  Leikfimi

 

Þegar nemandinn kemur svo viðkomandi stað er þar vinnukerfi  – sem segir honum hvað á að gera – í hvaða röð, hvenær búið, og hvað kemur næst.

 

  •  Dragið úr áreitum- minnka truflun

Einhverfu nemendurnir eiga oft erfitt með að einangra hljóð í umhverfi – þau heyra skrjáf í pappír, þau heyra umtal fram á gangi, einnig getur sjón truflað einbeitingu þeirra líka, t.d. geta myndir á vegg, eða óþarfa dót í stofunni truflað þau verulega. Við hættum smám saman að taka eftir auglýsingu sem er inni á kennarastofu en hún getur truflað einhverfa nemandann í hvert sinn.

Reynið að hafa eingöngu það sem barnið þarf að nota á vinnusvæðinu í hvert sinn – gangið frá auka dóti. 

Þessi regla er líka mikilvæg þegar þau setjast með kennara til að læra nýja færni. Nemandinn þarf að sjá hvað hann á að gera hjá kennara – hafið gögnin sýnileg, nemandinn sér 3 verkefni og veit þá að þetta er það sem ég á að gera hjá kennaranum mínum.

Kennarinn sýnir einnig hvert verkefnin eiga að fara þegar hann er búin að leysa þau. Þegar þið setjist niður með nemanda verið viss um að hafa bara það sem þið ætlið að nota þar.  Reynið að ganga frá öðru dóti.

 

  1. Notið hlutbundið mál

 Reynið að venja ykkur á að nota einfalt mál þegar þið eru að leggja inn nýja færni, til að tryggja að þau skilji fyrirmælin.  Reynið að koma til skila því sem þarf með sem fæstum orðum.

Engar málalengingar. 

Betra að segja :

Penninn niður – loka bókinni – förum í röð – göngum út í garð !

Í stað þess að segja :

Það er komið svo gott veður að  mig langar að leyfa ykkur að fara  út – klárið þá að skrifa – látið svo bækurnar niður og við skulum fara í röð við dyrnar og fara í garðinn til að  læra um plönturnar.  

 

Þegar þið gefið fyrirmæli og sjáið á svip barnanna að skilaboðin hafa ekki farið inn – reynið þá að einfalda mál ykkar og nota sjónræn skilaboð. – myndir.

Það er líka gott ráð að spyrja nemandann – hvað sagði ég ?  

En ekki gera það með hörkutón.

Ef nemandinn ýtir óvart öllum blöðum af borðinu – og þú segir – ‘flott’ – þá getur vel verið að hann geri þetta aftur – hann skilur ekki – kaldhæðnina !

Forðist líka að nota flókin orð – eða líkingamál.

Þú ert ein eyru. 

Nú kviknaði á perunni. 

Rennilás á munninn.

Moldin rýkur í logninu.

Við skulum sleppa svona tali í nánd einhverfu nemendanna.

 

  1.   Ekki taka því persónulega !

Einhverfir nemendur geta átt það til að segja hluti sem eru ekki viðeigandi en það er ekki til þess að vera með leiðindi eða til að vera dónaleg.  Þau vita ekki hvaða orðaforði er viðeigandi og hvernig spjall eða tal fer fram í hinum mismunandi félagslegu samskiptum,

Þess vegna er t.d  mikilvægt að sýna nemendum hvernig umgengisreglur líta út. Myndskeið sem sýnir það segir meira en mörg orð.

 

Það er líka mikilvægt að tala ekki um nemendur þegar þau eru viðstödd.  Stundum skilja þau allt sem sagt er stundum ekki neitt.  Nemandinn sem virðist allt í einu fá kast – það er í 99% tilfella eitthvað sem kom því af stað.  Okkar hlutverk er að vera næm og skynja ástand nemandans áður en vandinn verður of stór til að viðkomandi geti nýtt sér hjálpina.  Þarna er mikilvægt að skilja að skipulag hjálpar og er fyrirbyggjandi – dregur úr vanlíðan af því það að vita hvað á gera og til hvers er ætlast verða nemendur rólegir og í andlegu jafnvægi.

Við verðum líka að æfa með nemendum að takast á við það sem er erfitt. Hvað á ég að gera þegar ég skil ekki, eða ég veit ekki hvernig ég á að vinna þetta verkefni.

 

Kenna þeim að biðja um hjálp, biðja um útskýringar, segja frá ef einhver er að trufla, og fá leyfi til að fara fram.

Stundum halda þau þessu inni og svo þegar þau koma heim verða þau reið og pirruð – þetta bitnar þá á foreldrum sem oft vita ekkert hvernig skóladagurinn var. 

 

  •  Breytingar

Einhverfum nemendum líður best þegar það er regla og festa í skólastarfinu.  Þegar við breytum getur það valdið miklum kvíða – vegna þess að nemendur sjá ekki fyrir sér hvernig þetta verður.

Það að fara af einum stað á annan er enginn vandi fyrir flesta nemendur en þetta getur valdið ótrúlegum vanda meðal einhverfra nemenda. Það sem truflar okkur hin er að þau eru svo misjöfn -  allt gengur vel í dag - getur hins vegar verið yfirþyrmandi næsta   dag. Við verðum því að æfa markvisst breytingar – og venja okkur alltaf á að gera það með því að sýna eða skrifa til þeirra.  Þetta hjálpar þeim og þau læra að biðja um þessar skrifuðu upplýsingar.

Annað sem er erfitt fyrir einhverfa er að fara úr einum aðstæðum í aðra. Nemandinn er t.d. í tölvunni og vill  ekki hætta og vill vera þar lengur.  Það er þá okkar hlutverk að fá hann til að skilja með sjónrænum skilaboðum að nú þurfi að stoppa og fara úr tölvunni til að gera eitthvað annað.  Það sem er oft snjallt að gera er að biðja nemandann um að gera eitthvað sem er enn skemmtilegra en það að vera í tölvu – þá upplifir hann að fara úr tölvunni er ekki erfitt, lærir að fara, skipta um athöfn,  án þess að þrasa.

Það er líka hægt að biðja þau um aðra auðvelda hluti eins og segja: viltu rétta mér blaðið við hliðina á tölvunni – takk fyrir og hrósa fyrir það – viltu rétta mér pennann við hliðina á tölvunni – hrósa mikið fyrir það – biðja kannski um enn eitt og svo – loksins kemur – viltu koma með mér inn í eldhúsið – eða rétta honum töflumiðann .

Hann er þá búinn að fá tíma til að undirbúa sig fyrir breytinguna. Tímalínan er líka góð....kannski albest.

Mynd sýnir tölva – tölva – tölva – tölva – tölva – tölva = skoða töflu.

Myndirnar eru smám saman teknar af....og svo kemur töflumiðinn – ef þau eru ekki enn tilbúin set ég aftur upp  tölvumiðann – og segi ok, tveir enn og svo skoða töflu.  Þannig finna þau að við erum að taka tillit til þeirra.

Það má líka nota klukku – með rauða litnum – einnig sýna klukkuna – telja niður gengur stundum – og þá eru tölurnar á tölvunni - 10 – 9 – 8 – 7 – 6-5-4-3-2-1 – búin – já !  þú tekur þær smám saman niður.

 

  •  Sjálfstæði

Það mikilvægasta sem allir nemendur þurfa að læra er að gera hlutinn sjálfur.

Það getur verið freistandi að renna upp rennilásnum – þegar hann er að ströggla og gefa honum því ekki tækifæri til að læra þetta.

Það þarf að gefa nemenda tíma – okkur liggur ekkert á : Æfa að þau geri sjálf, - borða – skera – renna sjálf – þvo sér - finna dótið sitt  – ganga frá  –

Það þarf líka að kenna nemandanum að biðja um hluti – t.d. eins og skæri – og ekki biðja bara kennarann – æfa sig líka í að biðja aðra nemendur um að lána sér skæri  - eða blýant.

 

Æfa að velja – í upphafi gefa bara 2 valkosti – og hafa þá sýnilega.  Stundum verða einhverfu nemendurnir reiðir – pirraðir þegar það er verið að gefa þeim val – og valið er munnlegt – það tekur oft langan tíma hjá þeim að vinna úr munnlegum skilaboðum og þetta er krafa um að taka ákvörðun – sem er þeim afar erfitt.

Valið – verður auðveldara ef þau fá mynd eða þau sjá valið  – þá taka þau það sem þau vilja helst.

Munið að það er auðveldara að draga úr sjónrænum boðum – en munnlegum boðum.

Það er líka mikilvægt að muna – ef það sem þú gerðir virkar ekki verður þú að leita nýrra leiða – það er alltaf til einhver leið – það er okkar hlutverk að finna hana.

Það þarf líka að muna að þau þurfa æfingu í að gera það sem þú ert að kenna þeim.  Það þarf að gefa tíma en vertu fljót að skipta út ef þér finnst þetta alls ekki ganga.

Vikan ætti að vera nægilegt viðmið.

Það er líka mikilvægt að gera alltaf allt eins – í nýju námi.  Breyting getur tafið allt námsferlið - þegar við erum enn í innlögn.  Muna að læra svæðið er innlögn – innlögn getur hins vegar farið fram – þar sem nemandinn á að gera hlutinn  – t.d. sópa gólf getur ekki farið fram á læra svæði.  Fara með bréf til skólastjora verður að læra með því að fara með brefið.

 

  1. Hvatning - Hrós – förum varlega.

Hrósið skilar stundum ekki því sem við eigum von á – það getur stundum verið óbein krafa – það var ekki það sem við vorum að gera en þau hafa oft sagt okkur þetta :  ég verð að vera dugleg/ annars verður kennarinn leiður.  

Það er hins vegar sjálfsagt að hrósa þeim munnlega þrátt fyrir það.  Þau heyra að þetta er sagt við hina nemendurna og vilja fá eins.  Það er því sjálfsagt og mikilvægt að hrósa.  Það er hins vegar krafa í hrósi – um standa sig.  Þetta getur valdið miklum kvíða þannig að við verðum að huga að því hvernig við hrósum.  Þú varst duglegur að reyna aftur að skrifa stafinn – þú varst líka duglegur að byrja sjálfur á verkefninu – - svona umsagnir eru samt hrós.

 

  •  Lærum að búa til lista :

Þegar við venjum okkur á að skrifa lista erum við að sýna nemendum okkar að við gerum lista líka og þá læra þeir af þvi að sjá okkur nota þá.

Kennum með því að nota lista.

Hvers vegna ?  Hann gefur skýr skilaboð – nemandinn veit til hvers er ætlast.  Listinn sýnir ferlið sem er byrjunin, upphafið, miðjan, og lokin.

Kennarinn segir; ‘ Við skulum reikna’    Nemandinn fer að hugsa: Hversu lengi ? Hvað mörg dæmi? Hvenær er ég búinn?

Kennarinn skrifar/segir svo :

Það á að reikna 5 dæmi

Þessi skýru skilaboð frá kennaranum hjálpa,  þetta er mun betra og nú veit nemandinn að þessu lýkur og þá verður þetta ekki eins yfirþyrmandi.

Stuðningurinn er að fá skrifaðan lista um það sem á að gera, þegar farið er yfir námsefnið.

  1.  Kennsluleiðir – hugmyndir.

Einhverfu nemendurnir skilja oft illa hvers vegna þeir eigi að læra – framsett námsefni.  Þau skilja oft ekki tilgang námsefnis og þess vegna geta alls ekki komið sér að verki né unnið það.

Það sem hefur oftast borið bestan  árangur er að nota áhuga þeirra við að kenna hin mismsunandi fög og einnig við að kenna lestur – reikning – eða eðlisfræði.

Spurningar nýtast líka vel í kennslu.

Kennarinn segir: Plöntur þurfa sól

Hvað þurfa plöntur ?

Nemandinn: Sól

Kennarinn :  alveg rétt – og þær þurfa líka vatn og loft. Hvað þurfa plöntur ?

Nemandinn : vatn og loft

Kennarinn: alveg rétt – og hvað líka?

Nemandinn : Sól

Kennarinn: alveg rétt – og svo hafa þær stöngul og blöð – hvað hafa þær ?

Nemandinn : stöngul og blöð

Kennarinn: og hvað þurfa þær ?

Nemandinn: loft og vatn

Kennarinn : og hvað meira

Nemandinn : sól

Kennarinn: alveg rétt !

 

Það getur oft nýst vel að koma með setningar sem eru eitthvað alveg út í bláinn – til að kanna hvort þau hafi verið að hlusta og tekið við /lært. 

Kennarinn: Plönturnar þurfa líka gleraugu ---ekki satt !

Nemandinn: Nei – nei  (hlær hátt)

Mikilvægt að muna að skólinn á að vera skemmtilegur staður.  Nemendur læra mest þegar þeim líður vel og eru glaðir.

Samið í mars 2020

Svanhildur Svavarsdóttir

Einhverfusérfræðingur

TEACCH certified consultant.

 

 

Close

50% Complete

Viltu fá upplýsingar um greinar og fréttir?